Æjá, og Alan Bates er hrokkinn upp af. Ég man náttúrlega alltaf best eftir honum í nektarglímunni við Oliver Reed í Women in Love. Samt get ég aldrei rifjað upp það atriði án þess að mér detti í hug saga sem ég las í kveri eftir Nigel Rees, Eavesdropping, með undirtitlinum ,,bizarre overheard remarks" eða eitthvað álíka. Einhver er þar að segja söguna af því þegar hann sá myndina í bíó á sínum tíma; fyrir aftan hann sátu tvær rosknar konur sem voru eitthvað að tjá sig um efni myndarinnar og leikarana, eins og rosknum konum hættir til að gera í bíó eða leikhúsi. Einmitt þegar nektarglíman stendur sem hæst og Reed og Bates (þeir voru tiltölulega ungir og flottir þá) velta í faðmlögum um teppið, þá hallar önnur konan sér að hinni og segir stundarhátt: ,,Nice carpet."
Ég man líka þegar ég sá Hafið í Þjóðleikhúsinu á sínum tíma. Þá voru einmitt fjórar rosknar konur á næsta bekk fyrir framan og ræddu fram og aftur um leikritið allan tímann. Og reyndar líka um leikarana sjálfa og einkalíf þeirra. Ég missti eiginlega af helmingnum af leikritinu, það var svo mikið í gangi þarna á bekknum fyrir framan. Og þar sem þær sátu á næstfremsta bekk barst trúlega hvert einasta orð sem þær sögðu upp á sviðið líka.