Ég var komin í meiriháttar jólaskap áðan, búin að setja jólaljós í gluggana (feitu asnalegu snjókarlarnir eru þó enn ófundnir), stóð í eldhúsinu að flysja kartöflur, lambahryggur að steikjast í ofninum (kryddaður með regnbogapipar og rósmaríni), mandarínulykt í eldhúsinu, dúkur kominn á borðið ... og þá er farið að spila jólasálma á klukknaspilið í Hallgrímskirkju. Mér leið snöggvast eins og það væri komið aðfangadagskvöld og ég hefði gleymt að fara í sparifötin.
Sauðargæran kom svo ásamt foreldrum sínum og systur og aðstoðaði mig við matargerðina. Eyddi tíu mínútum í að flysja kúrbítsenda sem ég lét hann fá og vandaði sig mjög mikið. Gekk svo um með einn pottinn minn á hausnum og tilkynnti öllum sem heyra vildu ,,ég er með húfu". Þegar hann var kominn með sleif í hendurnar minnti hann þó meira á riddara með hjálm og sverð. Riddarann sjónumhrygga, kannski - nei, tveggja ára glókollur sem brosir útundir bæði eyru er allt annað en sjónumhryggur.
Annars finnst mér auglýsingin um Don Quixote skelfilega lítið lestrarhvetjandi: ,,ef þú lest eina bók áður en þú deyrð ..." eða hvernig hún er nú aftur. Almennt held ég að auglýsingar þar sem dauðinn kemur við sögu séu ekki söluvænar.