Það stendur yfir bekkjarsystraafmæli hjá Boltastelpunni og bróður hennar var komið fyrir í pössun á meðan. Það held ég að hafi verið skynsamlegt. Ég rifjaði upp áðan fyrir efnafræðistúdentinum þegar hann var á svipuðum aldri og var sendur með fulla nammiskál inn í stofu til að bjóða tíu eða tólf tíu ára stelpum.
Hann birtist í dyragættinni, brosandi og stoltur og rétti fram skálina. Hann var kominn tvö skref inn í stofu þegar stelpnaskarinn kastaði sér yfir hann, allar í einu. Hann gjörsamlega hvarf í iðandi þvöguna. En ekki mjög lengi. Skyndilega voru allar stelpurnar horfnar, hver í sitt sæti, og litli stubburinn stóð þarna frosinn í sömu sporum með einhvern þann furðulegasta skelfingarsvip sem ég hef séð um dagana á andlitinu og rétti enn fram skálina. Galtóma.
- Ég er viss um að þessi reynsla hefur sett mark sitt á allt líf mitt, sagði hann.
Ég gæti trúað að það væri rétt hjá honum. Allavega skil ég vel að systir hans vilji nú forða syni sínum frá sömu lífsreynslu.