Ég hef ekki séð þættina hjá Jóa Fel og ætla þarafleiðandi ekkert um þá að segja. En ég les uppskriftirnar á síðu Stöðvar 2. Og mig langar mikið til að vita hvaða bakaratrikki hann beitir til að breyta olíu (ekki ólífuolíu) í hrískökuuppskriftinni í síróp í miðju kafi.
Reyndar mundi ég, ef ég væri að gera þessa uppskrift, ekki demba öllu Rice Krispies-inu út í svona í upphafi, mér finnst 300 g af því ansi mikið fyrir 200 g af súkkulaði. 300 g Rice Krispies eru líklega nærri 2,5 lítrar. Við Boltastelpan gerðum svipaðar kökur fyrir ekkert svo löngu og notuðum örugglega ekki meira en 1 l af hrís fyrir 200 g af súkkulaði. Þetta má ekki vera of þurrt, allavega ef á að vera eitthvað eftir á sleikjunni til að sleikja ... En þetta gæti náttúrlega verið annað bakaratrikk.