Alveg get ég tekið undir með Þórdísi, það er kostur að vera bara komin af skagfirskum bændum sem ekki komust til meiri metorða en að vera í stjórn kaupfélagsins, skrifuðu stöku sinnum í Tímann og enduðu kannski í neðsta sæti á framboðslista - mig minnir að afar mínir hafi við einar kosningar skipað heiðurssæti á listum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandi vestra, nema það hafi verið árið sem afi í Holti var á lista Frjálslyndra vinstri manna. Ég held að þetta dugi ekki til að nokkur hafi áhuga á að skrifa um þá, hvorki með né án umboðs afkomenda.
Reyndar var fyrir nokkrum áratugum skrifuð fjögurra binda heimildaskáldsaga um Djúpadalsættina en þar var ekki farið nær nútímanum en fram undir miðja 19. öld og þar sem það var Elinborg frænka mín Lárusdóttir sem skrifaði bækurnar var þar fátt bitastætt. Fyrir nokkrum árum kom aftur á móti út Djúpdæla saga eftir Stefán Jónsson á Höskuldsstöðum; þar eru ættarsagnirnar óritskoðaðar. Það var miklu skemmtilegri lesning og meira djúsí en bækur Elinborgar skáldkonu.
(Sá sem fékk eintakið mitt af Djúpdæla sögu lánað er beðinn að gefa sig fram ef hann les þetta.)