Boltastelpan gisti hjá mér í nótt og tilkynnti mér þegar við vöknuðum í morgun að við ætluðum að baka. Ég nennti satt að segja ekki að baka en hvað gerir maður ekki fyrir barnabarnið sitt? Svo að ég valdi afskaplega fyrirhafnarlitla og fljótlega uppskrift sem getur reyndar vel verið að ég hafi birt hér áður. Þær eru tilbúnar á innan við tuttugu mínútum eftir að hafist er handa, nema ofninn sé lengi að hitna.
Þessar eru töluvert sætar en eru yfirleitt afskaplega vinsælar hjá börnum. Reyndar var Boltastelpan svo hrifin af kökudeiginu að mér heyrðist helst á henni að það væri engin sérstök ástæða til að baka kökurnar, deigið væri svo gott. Enda er er í Bandaríkjunum o.v. hægt að fá ís með ,,cookie dough"-bragði (Ben og Jerry's-ísinn sem fæst hér og er því miður svívirðilega dýr er t.d. til þannig.) Það er líka mjög gott að setja saxaðar hnetur út í, t.d. pekanhnetur eða valhnetur, en ég sleppti því í þetta skipti, enda er ég ekkert viss um að Boltastelpan kunni að meta þær.
Súkkulaðibitakökur
125 g smjör, lint
100 g sykur
75 g púðursykur
1 egg
2 tsk vanillusykur
175 g hveiti
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
150 g súkkulaðidropar
Ofninn hitaður í 200°C. Smjör, púðursykur og sykur hrært vel saman í matvinnsluvél eða með þeytara. Egginu hrært saman við og síðan er hveiti, matarsóda og salti hrært saman við og að lokum súkkulaðidropunum. Sett með tveimur teskeiðum á tvær pappírsklæddar bökunarplötur (12 kökur á hverja) og bakað ofarlega í ofni í um 8 mínútur. Kökurnar látnar kólna á plötunum í 1-2 mínútur og síðan færðar yfir á grind.