Gallinn við að vinna á tímariti er að maður er oft mánuði eða meira á undan umhverfinu. Í sólskininu í dag er ég til dæmis búin að standa sveitt í eldhúsinu við að matreiða haustlega rétti; í fyrri hluta nóvember verð ég á kafi í eldamennsku á jólasteikum og í desemberbyrjun verð ég farin að herða sultarólina og búa mig undir janúarmegrunina og Visablankheitin. Ég hef áður minnst á ókosti þess að vera að undirbúa grillblaðið í apríl.
Annars er fólk í kringum mig að tala um að því finnist haustið næstum vera komið, bara af því að það er búið að klára sumarfríið sitt. Ég á næstum allt mitt eftir þannig að mitt sumar er hreint ekki búið. Ég fer í frí um helgina og ætlast svo sannarlega til að fá gott veður á næstunni, búin að sitja í vinnunni hvern góðviðrisdaginn af öðrum. Allavega er ég að vonast eftir að fá gott veður um helgina og í næstu viku; ég verð í Brekkuskógi og það er mun skemmtilegra að vera í sumarbústað í góðu veðri en rigningu.
Ojæja. Það er svosem alltaf hægt að spila kana eða Gömlu jómfrú eða Alþýðubandalagsspilið ef illa viðrar.