Ég veit nú um ýmsa sem gætu haft not af þessari uppfinningu. Fyrir hana fékk uppfinningamaðurinn Ig-Nobel-verðlaunin í líffræði árið 2001.
Ig-Nobel-verðlaunin hafa annars verið veitt fyrir ýmis lítt þekkt afrek, svo sem rannsókn á söfnun á naflaló, rannsókn sem áætlaði heildaryfirborðsflatamál indverskra fíla, fyrir rannsókn á slysum sem verða þegar klósett brotna í Glasgow, breska Staðlaráðið fékk bókmenntaverðlaunin fyrir sex blaðsíðna staðal um tehitun (hefur Staðlaráð Íslands gefið út kaffistaðal?) - æi, já, og svo var það norski læknirinn Arvid Vatle, sem fékk Ig-Nobel-verðlaunin í læknisfræði fyrir rannsókn sína á því í hvers konar ílátum sjúklingar hans skiluðu inn þvagprufum (greinin heitir Unyttig om urinpröver).