Boltastelpan sá um eftirréttinn í gærkvöldi og gerði það með glæsibrag. Hún bar fram ávaxtasalat sem fyllti stóra skál og í því voru: Jarðarber, bláber, vínber, perur, þrjár tegundir af eplum, kíví, bananar, mandarínur, appelsínur ... ég held að ég sé að gleyma einhverju en með þessu bar hún fram súkkulaðispæni og gervirjóma (hún vill ekki alvörurjóma). Hún skar ávextina alla niður sjálf og passaði að hafa bitana litla svo að ekki væri hætta á að þeir stæðu í átvaglinu bróður hennar, sem hættir til að troða of miklu upp í sig. Þetta tók hana að minnsta kosti hálftíma en hún gat reyndar dundað sér við salatgerð á meðan við hin vorum að borða forréttinn, þar sem hún hafði ekki áhuga. Svo stóð hún snemma upp frá aðalréttinum (prime rib af útigrillinu, með grilluðum tómötum og bökuðum kartöflum og rófum) af því að hún var ekki alveg búin að steinhreinsa öll vínberin. Hún gat nefnilega ekki hugsað sér að hafa vínberjasteina í þessu fína salati.
Hér kemur uppskrift að forréttinum. Fiskikryddið sem ég notaði var reyndar eitt af þeim sem ég er að prófa og fæst ekki hér (allavega ekki enn) en það má nota aðrar tegundir af fiskikryddi, helst þær sem líkjast fiskkrafti, eða einfaldlega fiskkraft í duftformi. Sumt svona krydd/kraftur er býsna salt og þess vegna er ekki víst að þurfi að salta réttinn neitt meira. Ef ekki fæst milt chilialdin er best að nota bara 1/2 ,,venjulegt" chili (lítið og sterkt) og saxa það mjög smátt, því sósan á alls ekki að vera mjög sterk. Chilið sem ég var með (frá Engi) er svo milt að flestir ættu að geta bitið í það án þess að láta sér bregða.
Upphaflega ætlaði ég ekki að hafa neinn forrétt en skipti um skoðun þegar ég sá að prime rib-stykkið var ögn minna en ég hafði haldið og ég var ekki alveg viss um að það myndi duga fyrir 8. Þá fór ég í fiskskúffuna í frystiskápnum, fann þar nokkra afganga og notaði þá bara, en það mætti vel hafa ýmislegt annað. Reyndar hefði ég alveg eins getað gert súpu úr þessu, bara bætt við dálitlu góðu fisksoði, en mig langaði meira að hafa þetta svona.
Fiskmeti í chili-rjómasósu
200 g steinbítskinnar (mætti nota t.d. lúðu eða skötusel í bitum)
125 g hörpuskelfiskur
125 g rækjur
1 tsk fiskikrydd eða -kraftur
1 msk olía
1 laukur, saxaður smátt
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 milt chilialdin, rautt, fræhreinsað og skorið í ræmur
2 tómatar, saxaðir fremur smátt
1 msk ferskt oregano, saxað, eða 1/2 tsk þurrkað
250 ml rjómi
nýmalaður pipar
salt ef þarf
sósujafnari eða maísmjöl til þykkingar
Kinnarnar skornar í tvennt ef þær eru stórar og síðan settar á disk ásamt hörpuskelfiski og rækjum og fiskikryddi eða krafti stráð yfir. Olían hituð á pönnu eða í víðum potti og laukur og hvítlaukur látinn krauma við fremur vægan hita í um 5 mínútur án þess að brúnast. Þá er kinnunum bætt á pönnuna ásamt chili, tómötum og oregano og steikt í 2-3 mínútur við meðalhita. Rjómanum hellt yfir og hörpuskelinni bætt út í. Látið malla í 1-2 mínútur, smakkað og kryddað með pipar og salti eftir smekk, og síðan eru rækjurnar settar út í, sósan þykkt með sósujafnara eða maísmjöli hrærðu út í svolitlu köldu vatni, látið malla í 1 mínútu og síðan borið fram, gjarna með ristuðu brauði.