Hérna er ég búin að heyra GSM-síma efnafræðistúdentsins hringja hátt og snjallt öðru hverju í allan dag inni hjá honum (hann var í vinnunni, ég er heima í sumarfríi) og svo kemur upp úr dúrnum að þetta var maður sem lá mikið á að ná í mig, hafði hvergi fengið heimasímann minn uppgefinn en hafði aftur á móti getað grafið upp GSM-númer efnafræðistúdentsins (drengurinn er reyndar skráður fyrir heimasímanum en manninum hafði auðvitað ekki dottið í hug að athuga það). Líklega endar með að ég gefst upp og set nafnið mitt aftur inn í símaskrána. Ég er ábyggilega alltaf að missa af einhverjum snilldartækifærum af því að ekki hefst uppá mér en hins vegar virðist símasölufólk ekki vera í vandræðum með að finna númerið.
Það verður þá bara að hafa það þótt ég fái eitthvað af hringingum klukkan hálfsex á aðfangadag frá fólki sem er í vandræðum með jólasteikina. Sem var ástæðan til þess að ég lét taka númerið úr skránni á sínum tíma.