Eftir langa setu yfir rauðvíni á Reynimelnum, diskussjónir um Bleikt og blátt og margt fleira, þá röltum við í bæinn í blíðuveðri um tvöleytið (Anna var ekki með svo að við tókum ekki leigubíl). Það gekk slysalaust þótt ég væri á töluvert hærri og mjórri hælum en ég er vön að ganga á. Settumst aðeins inn á Vínbarinn en skiptum strax um skoðun og héldum áfram göngunni upp á Næsta bar. Þar var ég þegar hertekin af uppáhaldsfrænku minni og uppálagt að fara að tala illa um Þingeyinga, sem ég neitaði þó að gera, enda var amma mín frá Húsavík og ég á ættir að rekja á Látraströnd og í Flateyjardal (æ, nú er búið að færa þetta yfir í Eyjafjarðarsýslu, er það ekki? Er ég þá ekki lengur af þingeyskum ættum?)
Auk þess sá ég síður en svo ástæðu til að segja nokkuð neikvætt um Þingeyinga, þar sem eini Þingeyingurinn við borðið færði mér óvænt hvítvínsglas, og það frekar tvö en eitt, og hafði um það mörg orð hvað hann væri mikill aðdáandi minn. Bókanna minna, alltsvo. Ekki dettur mér í hug að tala illa um svoleiðis menn.