Fimm sinnum man ég eftir að hafa fundist ég vera í verulegum háska á lífi og limum í umferðinni:
Einu sinni sem farþegi í bíl sem fór út af í Bólstaðarhlíðarbrekkunni og stöðvaðist eftir mikil loftköst, nokkru áður en hann lenti á veggnum á Húnaveri, þar sem einmitt stóð yfir dúndrandi dansleikur (sem ég var á leiðinni á, og fór reyndar á þegar ég var búin að fullvissa mig um að enginn væri illa slasaður - bílstjórinn slasaðist í andliti, strákurinn í framsætinu slapp af því að hann var í svo þéttum faðmlögum við stelpu í aftursætinu (ekki mig) að hann tók ekki einu sinni eftir útafakstrinum fyrr en í þriðja loftkasti).
Einu sinni þegar ég var að fara yfir Hringbrautina á gangbrautarljósum og ungur maður á flottum bíl keyrði á ólöglegum hraða yfir á rauðu, rétt við tærnar á mér, og hvessti augun illilega á mig á meðan, skildi greinilega ekki hvað þessi kerling var að æða út á götu.
Þrisvar sinnum á gangstéttum á Laugavegi eða í Austurstræti, ævinlega af völdum hjólreiðarmanna sem telja sig eiga réttinn á gangstéttum. Líka þar sem bannað er að hjóla á gangstéttum. Og telja sig líklega ekki þurfa að fara eftir neinum umferðarreglum eða almennum varúðarreglum. Seinast núna í gær, þegar munaði örfáum sentímetrum að strákur hjólaði beint á mig í Austurstræti. Hann hjólaði á nokkrum hraða eftir miðri gangstéttinni, var með augun límd við gemsann sinn, var að senda SMS, stýrði með annarri hendi og ætlaðist greinilega til þess að fólk passaði sig svo að hann þyrfti ekki að gera það.
Fyrir allnokkrum árum bjargaði ég líka naumlega lífi Boltastelpunnar á Laugaveginum, við vorum að rölta þar á sunnudagsmorgni og ekki einn einasti bíll á götunni. Þá komu þrír ungir menn (ekki þó unglingar) hjólandi á miklum hraða eftir gangstéttinni (þar sem er bannað að hjóla), sveigðu örlítið til hliðar til að komast framhjá mér en tóku ekkert eftir því að ég var með tveggja ára barn við hlið mér. Ef ég hefði ekki rykkt henni til hliðar í ofboði hefði fremsta hjólið lent beint á henni.
Frá mínum bæjardyrum séð eru hjólreiðamenn semsagt mun hættulegri fyrir gangandi vegfarendur en bílstjórar.