Mér tókst ekki að gabba efnafræðistúdentinn í gær eins og ég hafði ætlað mér. Það var nefnilega rólegt hjá honum í vinnunni svo að hann hafði sest við tölvuna og kíkt á blogg móður sinnar. Þannig að hann var við öllu búinn og lét sér fátt um finnast þótt ég veifaði steiktum hjörtum á teini fyrir framan hann.
Ég er að fletta nýju Gestgjafablaði, sem reyndar er enn ekki farið í dreifingu. Þarna eru myndir af mér og afkomendum mínum í pikknik í Hljómskálagarðinum og er helst til tíðinda að telja af þeim myndum að Sauðargæran er ekki með hor.
Hann kom reyndar við hjá mér áðan, rennblautur í pollagallanum, og að sjálfsögðu með hortaum niður eftir efri vörinni. Og var samt kyssilegur. Sumir karlmenn hafa þennan flagarahæfileika sem getur orðið til þess að manni sjáist yfir alla mínusa. Jafnvel hortauma (ókei, reyndar bara ef þeir eru yngri en þriggja ára; eftir það mundi ekkert flagarabros duga. Ekki á hor).