Ég bjargaði lífi efnafræðistúdentsins í morgun að sögn hans sjálfs. Hann vaknaði nefnilega eitthvað seint og mátti ekki vera að því að fá sér neitt eða taka til nesti; um hálfellefuleytið var hann svo að verða hungurmorða og hringdi í móður sína, sem sá aumur á honum og skaust til hans með samloku og engjaþykkni. Það bjóst hann við að mundi halda í sér lífi til níu í kvöld, þegar hann kemur af vaktinni.
Ég er samt að hugsa um að segja honum að hann fái grilluð lambahjörtu að hætti Perúmanna í kvöldmatinn og athuga viðbrögðin. Kannski bara sýna honum hjörtun (sem eru tilraunaverkefni) en fela kjúklinginn sem ég er í alvöru að grilla ofan í hann.
Ég er vond mamma. Eða nei, ég er mjög góð mamma, bara svolítið kvikindisleg stundum.