Annars hefur mér svosem ekkert orðið úr verki um helgina af því að á föstudaginn fékk ég bókapakka frá Amazon sem innihélt meðal annars ævintýri beggja uppáhalds rómversku spæjaranna minna, þeirra Falcos og Gordianusar, svo að ég er búin að sitja meira og minna úti á svölum og lesa í góða veðrinu. Stóð reyndar líka drjúga stund niðri í garði að spjalla við Evu Maríu, sem var á fullu að reyta og klippa gras, en datt ekki í hug að bjóðast til að hjálpa henni. Þótt hún sé komin níu mánuði á leið. Hey, það eru þau sem vilja hafa þetta grjót í garðinum, ekki ég. Ég bauð efnafræðistúdentinn hins vegar fram í það hlutverk að bera níðþung blómakerin út á gangstétt. Hann verður settur í það þegar hann kemur heim. Þegar hann er búin að borða hjörtun ...
Reyndar er ég mjög sátt við að Skari og Eva fari með garðinn nokkurn veginn eftir sínu höfði, bara ef ég þarf sem minnst að gera þar. Þegar ég var að leita að íbúð á sínum tíma sagði ég alltaf að ég vildi íbúð með stórum svölum og engum garði. Þessi er með stórum svölum og garði en ég reyni að líta framhjá því. Mér er illa við allt sem þarf stöðugt viðhald.
Hjörtun eru annars skrambi góð. Með fullt af chili. Kryddlegin hjörtu, semsagt.