Hvað á maður að halda þegar löggubíll merktur Vettvangsstjóri stoppar fyrir utan hjá manni? Og sýnir ekki á sér neitt fararsnið? Er Víkingasveitin á leiðinni?
Ég veit ekki til að það hafi búið neinn glæpon hér í húsinu seinustu fimmtán tuttugu árin. Þar áður, mikil ósköp. Dópdílerar í risinu og leigubílstjóri sem seldi sprútt og læknadóp í minni íbúð. (Fyrir tveimur árum fannst kassi með sirka tvö hundruð tómum pilluglösum í leynihólfi milli þils og veggjar úti í skúr. Allt stílað á nafn þessa manns, allt gefið út á 1-2 árum af þremur eða fjórum læknum.) En ég held þetta séu allt mestu sakleysingjar sem hér búa núna. Engir mannlegir harmleikir í uppsiglingu. Eða hvað?
Kannski var vettvangsstjórinn bara að fara í kaffi hjá frænku sinni í næsta húsi eða eitthvað. Allavega bólar ekkert á Víkingasveitinni ennþá.