Á maður að nenna að horfa á leiðtogaumræðurnar? Æ, ég veit það ekki. Löngu búin að ákveða hvað ég kýs og á ekki von á að heyra nein ný sannindi. En þetta verða spennandi kosningar. Og eins og Lalli Johns segir: það verður annaðhvort framför eða afturför.
Ég var að elda fyrir myndatökur í vinnunni í dag og tók eitthvað af afgöngunum með heim í kvöldmatinn handa okkur efnafræðistúdentinum. Við ætluðum á Vínbarinn en enduðum á Metz (þar sem Oro var og áður Rex), sem reyndist fínn staður - mun ódýrara vín og mun minni sígarettureykur en á Vínbarnum. Förum örugglega þangað aftur.
Rabbarbarinn frá Hildigunni kom sér vel og hér er uppskriftin - ég hafði þetta með steiktum lambahrygg (ef einhver tekur eftir að ég skrifa ýmist rabbarbari eða rabarbari, þá er það með vilja gert):
Rabarbara- og spínatkompott
500 g rabarbari (helst rauður)
2 msk sykur
2 msk vatn
1/4 tsk kínversk fimm krydda blanda
væn hnefafylli af spínati (u.þ.b. 150 g)
Rabarbarinn skorinn í 3-4 cm bita. Sykur, vatn og fimm krydda blanda sett á pönnu eða í pott, hita að suðu og hrært þar til sykurinn er uppleystur. Rabarbarinn settur á pönnuna og soðinn í 3-4 mínútur. Spínatið sett ofan á, lok lagt yfir, hitinn lækkaður og látið malla í 3-4 mínútur í viðbót. Hrært lauslega í blöndunni og borið fram með lambasteik.