,,Feit, löt og harðbrjósta" er fyrirsögn á einhverjum pistli eftir Gunnar Smára í Fréttablaðinu í dag, sem ég nenni reyndar ekki að lesa - sjálfsagt er ég þó meira og minna sammála efninu því ég hef grun um að það sé átt við ríkisstjórnina, en mér fannst þetta bara eiga svo ljómandi vel við mig þessa stundina að ég ætla að ímynda mér að þessu hafi verið beint til mín. Þetta með spikið þarf nú ekki að ræða. Ég er búin að vera ákaflega löt síðustu daga - hef reyndar druslast í vinnuna og reynt að gera eitthvað þar en ekkert nennt að gera af öllum þeim aukaverkunum sem ég var búin að lofa, að ekki sé nú talað um vorhreingerninguna sem ég var búin að lofa sjálfri mér að fara í. Og harðbrjósta - hmm, ég vorkenni efnafræðistúdentinum ekkert að vera í prófum, ég hef takmarkaða samúð með hlaupabólusjúklingnum, og ég finn eiginlega ekkert til með uppáhalds tengdasyni mínum þótt hann sé að vinna fram á rauðanótt við að brenna tvö og hálft tonn af kaffi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.