Af hverju er ég ekki búin að blogga neitt í dag? Á því geta nú verið ýmsar skýringar:
a) Veðrið. Ég er búin að sitja úti á svölum í mestallan dag að lesa glæpareyfara. (Rétt. Bone in the Throat eftir kokkinn Anthony Bourdain. Hann getur alveg skrifað spennusögur, ekki síður en annað. Og notar sjálfan sig sem fyrirmynd að dópistakokkinum sem er stór aukapersóna í þessari bók.)
b) Kommon, ég á mér líf, ég sit nú ekki við tölvuna allan daginn á frídögum. (Ehhm ... neinei, ekki alltaf ...)
c) Ég drakk of mikið hvítvín með biscotti-inu í gær og hef legið í timburmönnum í allan dag. (Rangt. Ég drekk aldrei of mikið hvítvín. There's no such thing.)
d) Tölvan er biluð. (Rétt. Ég er núna búin að tengja gömlu tölvuna.)
Ég steikti kleinuhringi með morgunkaffinu en gasið kláraðist í miðri steikingu. Til allrar hamingju var samt búið að steikja nóg ofan í gestina svo að það var hægt að drekka morgunkaffi á svölunum í ró og næði áður en farið var að kaupa áfyllingu á kútinn. Gagnlega barnið segir að afgreiðslumaðurinn á bensínstöðinni hljóti að vera farinn að hugsa margt, þetta var í þriðja skipti á tíu dögum sem hún kom að kaupa gaskút (grillkút fyrir sig og mig og svo þennan). Og alltaf sami karlinn sem afgreiddi. Heldur örugglega að hún sniffi þetta allt.
Þið þarna Hamrahlíðarkórfólk sem lesið þetta og eigið eftir að sækja kaffið ykkar eða vitið um einhvern sem á það eftir, viljiði plís fara að koma og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama? Svo ég komist einhvern tíma inn í skúrinn minn fyrir kaffikassastöflunum?