Ég hef aldrei skilið þá áráttu sem kvenfólk í bandarískum bíómyndum hefur að raða ótal logandi kertum hringinn á baðkersbrúnirnar þegar það er í baði. (Reyndar datt mér þetta í hug þegar ég rifjaði upp baðsenuna í The Big Lebowsky - The Dude var jú með kerti - en það er önnur saga.) Til hvers í ósköpunum? Og hvernig á maður að príla ofan í og uppúr baðinu yfir öll þessi kertaljós? Eða á að leggjast ofan í baðið og byrja svo að raða kertum og kveikja á þeim? Og hvað svo? Sko, ég get ekki ímyndað mér að nokkur færi að hafa fyrir þessu kertaveseni uppá að liggja skemur en korter í baði, lágmark. Ég gæti ekki legið korter eða lengur í baði og gónt út í loftið, ég yrði að hafa með mér bók og hvítvínsglas. Og þá væru fjandans kertin orðin fyrir. Eins ef ég tæki einhvern með mér í baðið til að mér leiddist ekki, þá yrði gusugangur og það mundi skvettast á kertin (ég er náttúrlega að meina Sauðargæruna, til dæmis).
En ég er nú frekar lítið rómantísk í mér.