Hér kemur afskaplega auðveld kjúklingavængjauppskrift sem hefur ýmsa kosti til að bera - til dæmis er engin viðbætt fita, vængirnir eru bara settir á pappírsklædda bökunarplötu og stikna svo í eigin feiti og ættu að fá á sig stökka, kryddaða húð (það má auðvitað nota annað krydd að vild) og svo þarf bara að snúa þeim einu sinni. Það er enginn vandi að margfalda uppskriftina, ég steikti 100 vængi á sunnudagsmorguninn var með lítilli fyrirhöfn. Reyndar fékk ég þá sundurtekna - ég var búin að draga fram þunga kjötsaxið mitt sem heggur í gegnum kjúklingabein eins og eldspýtur (næstum því) en svo kom upp úr dúrnum þegar pakkarnir voru opnaðir að það var búið að hluta þá í sundur og vængendarnir fylgdu ekki. Annars hefði ég fryst þá og notað þá í kjúklingasoð.
Ofnsteiktir kjúklingavængir
12-16 kjúklingavængir
50 g hveiti
1 tsk kummin
1 tsk paprikuduft
1/2 tsk kóríander
1/2 tsk oregano
1/4 tsk túrmerik (má sleppa)
chilipipar á hnífsoddi
nýmalaður pipar
salt
Ofninn hitaður í 200 gráður. Kjúklingavængirnir skornir eða höggnir í sundur á liðamótum (best að nota þungan hníf eða sax) og vængendunum hent (eða þeir notaðir í soð). Vængbútarnir skolaðir í vatni en ekki þerraðir. Kryddi og hveiti blandað saman í skál og vængjunum velt vandlega upp úr blöndunni. Raðað á pappírsklædda bökunarplötu og settir í miðjan ofninn í u.þ.b. 15 mínútur. Þá er þeim snúið og þeir bakaðir í um 10 mínútur í viðbót, eða þar til þeir eru steiktir í gegn. Bornir fram heitir eða kaldir með ídýfu.