Það hefur lengi verið stefna mín að gefa ungum börnum hávaðaframkallandi og pirrandi leikföng í jólagjöf og þessi stefna hefur aflað mér um það bil álíka mikilla vinsælda og óvinsælda, ég held það hallist ekki á. Auðvitað byrjaði ég ekki á þessu að ráði fyrr en eftir að mín eigin börn voru vaxin upp úr svona dóti svo ég ætti ekki á hættu að fólk hefndi sín. Þó man ég reyndar að ég gaf gagnlega barninu leikfangaorgel þegar hún var þriggja ára; bróðir minn tautaði þegar hann sá gripinn ,,Þetta var mikill óvinafögnuður," og reyndist sannmæli.
Ég keypti einmitt mest pirrandi hávaðaleikfangið sem ég fann handa Sauðargærunni (tek þó fram að ég valdi leikfang með rofa svo að hægt er að slökkva á óhljóðunum. Það tekur drenginn örugglega hátt í viku að uppgötva rofann). En svo fórum við saman í aðra dótabúð um helgina og vorum að skoða dót fyrir eins og hálfs árs drengi. Þar rákumst við á enn meira pirrandi leikfang, sem Sauðargæran hreifst að sjálfsögðu mjög af og amma hans ekki síður; þetta var bílstýri með átta mismunandi óhljóðum og drengurinn uppgötvaði að ef maður heldur tökkunum niðri heldur hljóðið endalaust áfram ... Hmm, móðurbróðir hans á eftir að kaupa gjöf handa honum. Kannski vísa ég honum á þetta tæki.