Ég mæli með vínorðabók Rúsdrekkasølunnar. Nú veit ég allavega hvað drekkibúgvið þýðir. Og svo er best að hafa í huga eftirfarandi úr Lógarkunngerð fyri útflýggjan av rúsdrekka: ,,Rúsdrekka má ikki verða útflýggjað fullum fólki ... Tað er forboðið at útflýggja rúsdrekka, um tað er sannlíkt, at rúsdrekka er tilætlað øðrum, ið ikki lúka treytirnar fyri at fáa rúsdrekka."
Ég fékk mér reyndar eitt rauðvínsglas með kvöldmatnum en held þó að ég lúki treytirnar fyri að fáa rúsdrekka, allavega þessa stundina, nema það séu einhverjar treytir sem ég veit ekki af. En ég er svosem ekki í neinum rúsdrekkahugleiðingum.
Ég var að hengja upp skinkuna í búrinu. Náði henni úr leirkerinu við illan leik, þar sem það mjókkar dálítið upp og umfang skinkunnar hafði svo sem ekkert minnkað á meðan hún lá í pæklinum. Allavega fann ég þegar ég var að mjaka henni út um þrengslin að nú kom sér vel að hafa lesið í barnæsku einhverja nítjándu aldar kennslubók í yfirsetukvennafræðum, sem til var í Djúpadal, slíkar voru aðfarirnar. En út náðist flykkið og það án þess að kerið brotnaði, og nú hangir hausinn af E.T. inni í búri - eða öllu heldur liggur á þverspýtu, því ekki átti ég snæri sem ég treysti til að halda gripnum. Nú þarf að fara að hugleiða mögulegar leiðir til að sjóða skinkuna. Ef einhver getur lánað stóran sláturpott yrði ég voða glöð.