Það er víst bara mánuður til jóla en til allarar hamingju eru mjög óvíða farnar að sjást jólaskreytingar í heimahúsum (einn granni minn hér á Skólavörðuholtinu að vísu undanskilinn). Mér finnst allt í lagi að byrja að skreyta fyrsta sunnudag í aðventu en þá helst aðallega með ljósum, aðventuljós og seríur í glugga og þess háttar. Svo getur maður verið að bæta við skreytingarnar smátt og smátt eftir því sem líður á jólaföstuna. Þannig vil ég allavega hafa það. Reyndar minnir mig að heima hjá mér hafi yfirleitt lítið sem ekkert verið skreytt fyrr en á Þorláksmessu, fyrir þann tíma var varla hægt að sjá önnur merki um að jól væru að nálgast en jóladagatöl upp á vegg. Og jólabaksturinn, auðvitað.
Svo þekki ég líka fólk sem skreytir allt hátt og lágt í desemberbyrjun eða jafnvel fyrr, setur jólagardínur í eldhúsið og hvaðeina. Ég veit ekki, ég held að ég yrði orðin hálfleið á þessu um það leyti sem jólin ganga í garð. Einhverntíma bætti ég við einum hlut á dag allan desember, fram á Þorláksmessu, kannski ég geri það aftur núna. Þá finnst mér jólastemmningin vera að koma smám saman. Þetta er líka allt svo miklu auðveldara og afslappaðra eftir að ég gerði mér grein fyrir því að jólin koma, hvort sem maður klárar allt sem maður ætlaði sér eða ekki. Hvort sem maður gerir hreint eða ekki. Hvort sem maður bakar eða ekki.
Samt getur vel verið að ég hafi mig upp í það í ár að sauma jólaeldhúsgardínur sem ég er búin að eiga efni í árum saman og keypti þegar ég var í sérlega miklu jólastuði sem varð svo að engu út af tímaskorti og streitu (þetta var sem sagt áður en ég hætti að stressa mig á jólaundirbúningi). Kannski. En ef ég geri það, þá verða þær sko örugglega ekki settar upp í byrjun desember. Kannski þegar Stekkjastaur kemur, efnið er einmitt með myndum af íslensku jólasveinunum.
Ég keypti mér reyndar jólastjörnu í Blómavali í gær. Það er nokkuð öruggt að mér tekst að drepa hana fyrir jól, ég geri það alltaf. Eldfjallið gerði heiðarlega tilraun til að fá mig til að punga út fyrir rándýrri jólagjöf handa snobbkettinum - þarna var mikið úrval af jólagjöfum og jólamat handa hundum og köttum, þótt úrvalið væri ekki eins mikið og í þessari búð hér - en ég gat fengið hana til að fallast á að það væri fullsnemmt að kaupa jólagjöf. Í staðinn keyptum við tvo litla bolta fyrir köttinn, sem ég er þó ekkert viss um að hann fái að sitja að einn, miðað við hvað sá í sauðargærunni varð hrifinn af boltunum.