Andabringa með rabarbaramauki
Allt í einu helltist yfir mig skyndileg löngun - nei, ekki til að blogga endilega, heldur í rabarbara. Annarhver maður að skrifa um rabarbara og ég á enga garðholu með rabarbara. Bakgarðurinn ógirtur og freistar manns ekki beint til að setja neitt niður.
En Oddný aumkaði sig yfir mig og bjargaði mér um nokkra rabarbaraleggi; af því að ég var bara að elda oní sjálfa mig dugði það í aðalrétt og eftirrétt og rúmlega það. Uppskriftin er samt miðuð við 4.
Rabarbaramauk með engifer
400 g rabarbari, rauður
100 g sykur, eða eftir smekk
4 cm bútur af engifer
100 ml rauðvín (eða bara vatn)
1 msk vínedik eða eplaedik
Ofninn hitaður í 200°C. Rabarbarinn skorinn smátt (í 1-2 cm bita) og settur í eldfast mót. Sykri stráð yfir. Engiferinn rifinn yfir og svo er rauðvíni og ediki hellt yfir, álpappír breiddur yfir mótið og bakað í 20-25 mínútur. Tekið út, rabarbarinn síaður frá (löginn má geyma, jafnvel gera úr honum sósu út á ís eða ávexti) og stappaður gróft með gaffli. Borinn fram með öndinni (líka gott t.d. með svína- eða lambasteik).
Andabringan var krydduð með kummini, kóríanderfræi, ögn af cayennepipar, pipar og salti og steikt í um 20 mínútur á pönnu, snúið nokkrum sinnum, látin hvíla í 5 mínútur.
Set uppskriftina að eftirréttinum inn rétt bráðum.