Skírn og forræði
Það eru meira en sautján ár síðan hann sonur minn hringdi grátandi í mig til að segja mér að hann hefði verið skírður hálftíma fyrr.
Það var afskaplega erfið stund fyrir mig. Hefur ekkert með trúarafstöðu mína að gera, heldur var það þá fyrst sem ég áttaði mig almennilega á því hvað ég hafði gert þegar ég lét föður hans eftir forræðið, ekki síst til að sýna að jafnréttistal mitt væri ekki innantómt kjaftæði og af því að ég trúði því raunverulega (og geri enn) að foreldrar séu jafnhæfir til að annast börn sín (en á því eru undantekningar, það veit ég núna). Mér fannst bara óhugsandi að einhver beitti barni fyrir sig til að sýna vald sitt. (Já, ég var óttalega saklaus og bláeyg í þá daga.)
Þetta var fyrir daga sameiginlegs forræðis og ég hef staðið í þeirri meiningu að svona gerðist ekki þegar foreldrarnir fara báðir með forræði yfir barni. En ég hef víst haft rangt fyrir mér.
Það sem mér fannst samt sérkennilegt og athugavert (og einhver sem ég talaði við á Biskupsstofu út af þessu viðurkenndi) var að viðkomandi prestur, sem ég hef reyndar ekki hugmynd um hver var, skyldi skíra tíu ára barn undirbúningslaust (það var verið að skíra hálfsystur hans og ákveðið með nokkurra mínútna fyrirvara að skíra hann bara í leiðinni) án þess að athuga með trúarafstöðu (trúlaus frá fæðingu til þessa dags) eða trúaruppeldi (nákvæmlega ekkert) eða raunverulegan vilja.
Mér er samt alveg sama um skírnina sem slíka, hún skiptir mig engu máli til eða frá. Það var grátur einkasonarins sem mér sveið svo sárt.