Millet -úlpur og minnisgnægð
Við langmæðgurnar erum enn á níunda áratugnum. Gagnlega barnið eignaðist aldrei Millet-úlpu, sennilega fyrir einskæra nísku og nánasarskap móðurinnar; hún átti bara Panda-úlpu sem að vísu var vel dýr en kostaði þó ekki nema helming eða svo á við Millet. Getur verið að Millet-úlpa hafi kostað vel á annan tug þúsunda á þessum tíma? Og hvað ætli það væri núna?
Annars rakst ég á auglýsingu frá 1. mars 1987 um nýjasta undrið: Fartölvu. Zenith Z-191 Portable Computer. Vegur ekki nema 5 kíló og kemst ofan í skjalatösku! Með skjá af fullri stærð, heilar 12 tommur, og hlaðanlegri rafhlöðu. 640 Kb innra minni (gnægð minnis, stendur í auglýsingunni), tveimur disklingadrifum og jú neim it. Kostar bara 92.000 krónur.
Ég þarf að fletta því upp þegar ég kem heim hvað ég var með í mánaðarlaun í mars 1987 (já, ég á það einhvers staðar). Hef grun um að það hafi verið nokkuð langt undir 92.000 krónum.