Blaðið farið
Ég bakaði reyndar enga köku í dag, hvorki banana- né eplaköku (enda var einhver með tiltektaræði búinn að henda flestum eplunum). Sóla sá um baksturinn af tvöföldu tilefni: Hún átti afmæli og var að hætta á Gestgjafanum. Alli hætti í gær svo að það er heldur fámennt á blaðinu núna. Nýja blaðið komst nú samt í prentsmiðju í kvöld. Þemað í því er íslenskt eldhús. Eða íslenskt og einstakt. Til dæmis kokkteilsósa ...
Við Guðrún Hrund vorum að vinna fram eftir og brugðum okkur svo á Red Chili í kvöldmat. Stilltum okkur alveg um að labba þessa nokkra tugi metra yfir á Vínbarinn á eftir (en við erum reyndar að hittast þar annað kvöld og förum svo á Einar Ben að borða. Ég er búin að leggja til að það verði ekki minnst einu orði á vinnuna allt kvöldið. Sénsinn ...
Ég er næstum búin að tæma skrifstofuna mína og flytja dótið inn til hinna á Gestgjafanum. Hlýt að þola að vera með öðrum á skrifstofu þessar fáu vikur sem eftir eru. En það er of vítt til veggja þarna inni (og of mikið af rörum og pípum í loftinu fyrir ofan mig); ég vil hafa veggi allt í kring. Er ekki mikið fyrir stóra sali og engin skilrúm.
En þetta eru nú bara fjórar vikur.