Gleðilegt nýár.
Ég átti ágæt áramót, borðaði hjá gagnlega barninu í gærkvöldi og var þar fram yfir miðnætti en var komin heim upp úr eitt. Nennti þessu ekki lengur ... Börnin voru mun duglegri en mér skilst reyndar að Sauðargæran hafi sofnað í fangi móður sinnar fljótlega eftir að ég fór. Hann var frekar skotglaður og fór að skæla rétt um miðnættið af því að pabbi hans var ekki búinn að skjóta upp stóra flugeldinum sem hann vissi að var til; hélt að hann hefði gleymst eða týnst.
Á maður ekki að tjá sig um skaupið? Allt í lagi, það sannaðist bara einu sinni enn að ég er ekki nógu mikil kona. Mér stökk ekki bros. Nema helst í atriðinu með Bubba og Séð og nú eða hvað það nú var. Reyndar var öll mín fjölskylda sammála og Sauðargæran talaði fyrir okkur öll þegar hann sagði, þegar skaupið var rúmlega hálfnað: -Mér finnst þetta ekki skemmtilegt. Ég vil fara að skjóta.
En ég sé að það eru ekki allir sammála. Það er ágætt.
Og nú þarf ég að fara að búa til tiramisu.