(function() { (function(){function b(g){this.t={};this.tick=function(h,m,f){var n=f!=void 0?f:(new Date).getTime();this.t[h]=[n,m];if(f==void 0)try{window.console.timeStamp("CSI/"+h)}catch(q){}};this.getStartTickTime=function(){return this.t.start[0]};this.tick("start",null,g)}var a;if(window.performance)var e=(a=window.performance.timing)&&a.responseStart;var p=e>0?new b(e):new b;window.jstiming={Timer:b,load:p};if(a){var c=a.navigationStart;c>0&&e>=c&&(window.jstiming.srt=e-c)}if(a){var d=window.jstiming.load; c>0&&e>=c&&(d.tick("_wtsrt",void 0,c),d.tick("wtsrt_","_wtsrt",e),d.tick("tbsd_","wtsrt_"))}try{a=null,window.chrome&&window.chrome.csi&&(a=Math.floor(window.chrome.csi().pageT),d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.chrome.csi().startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a==null&&window.gtbExternal&&(a=window.gtbExternal.pageT()),a==null&&window.external&&(a=window.external.pageT,d&&c>0&&(d.tick("_tbnd",void 0,window.external.startE),d.tick("tbnd_","_tbnd",c))),a&&(window.jstiming.pt=a)}catch(g){}})();window.tickAboveFold=function(b){var a=0;if(b.offsetParent){do a+=b.offsetTop;while(b=b.offsetParent)}b=a;b<=750&&window.jstiming.load.tick("aft")};var k=!1;function l(){k||(k=!0,window.jstiming.load.tick("firstScrollTime"))}window.addEventListener?window.addEventListener("scroll",l,!1):window.attachEvent("onscroll",l); })();

Konan sem kyndir ofninn sinn

Eldhúsreyfarar miðaldra matargúrús á Skólavörðuholtinu

31.12.05

Þetta var dálítið skrítið ár. Mikið búið að gerast, ekki síst í vinnunni. Hér heima varð náttúrlega sú breyting helst að ég losnaði við efnafræðistúdentinn eftir margra ára tilraunir og er orðin einbúi. Það er ágætt. Þótt ég sakni hans stundum. Já, og svo kom ég því í verk að skipta um klósettrúlluhaldarann á baðinu. Hann var ónýtur þegar ég keypti íbúðina 1991.

Í vinnunni gekk töluvert á. Við fluttum með miklum látum í janúarlok. Upp í sveit. Ég þurfti að læra á strætókerfið. Var varla fyrr búin að læra en því var gjörbreytt. Ég var búin að ganga í vinnuna daglega í átján ár; það voru ekki liðnir tveir mánuðir frá því að ég þurfti að hætta því þar til ég var bæði orðin draghölt af slitgigt og komin með of háan blóðþrýsting. Ég eltist örugglega um fimmtán ár á þessu; ætti kannski að heimta aldursuppbót af vinnuveitandanum út á afleiðingar flutninganna. Ekki samt örorkubætur, því að heltin hvarf til allrar hamingju aftur.

Ég vann ansi mikið þetta árið og er þó ýmsu vön. Það var náttúrlega blaðið, vefurinn, tvær matreiðslubækur, ýmis aukaverkefni (sum sem ég fæ jafnvel borgað fyrir). Tók lítið frí (á enn eftir 18 daga af sumarfríinu) en fór þó fimm sinnum til útlanda: St. Pétursborgar, Kaupmannahafnar, Ítalíu, Frakklands og London. Það voru allt mjög skemmtilegar ferðir og sumar miklar sælkeraferðir. Að öðrum ferðum (og ferðafélögum) ólöstuðum var Kaupmannahafnarferðin með saumaklúbbnum þó skemmtilegust.

Vegna mikillar vinnu hef ég svosem ekki farið varhluta af góðærinu í þjóðfélaginu, ég er reyndar ekki búin að kaupa mér pallbíl (eða taka bílpróf), ekki einu sinni flatskjá, og ég keypti minna jólatré en síðast en ekki stærra eins og flestir aðrir. Ég er meira að segja farin að draga ögn úr matreiðslubókakaupum ... eða það held ég allavega. En ég kemst vel af. Var meira að segja alveg óvenju góð við sjálfa mig þetta árið. Ég átti það skilið.

Þetta var ekki slæmt ár en að mörgu leyti dálítið erfitt og það sér reyndar ekki fyrir endann á því án þess að ég sé að fara nánar út í það. Ár breytinga. Ég er reyndar að vonast eftir áframhaldandi breytingum á ýmsum sviðum á nýju ári. Hvað sem úr verður.

Nóg um það; ég þarf að fara að hafa mig til, aldrei þessu vant er mér nefnilega boðið í mat. Krónhjartarsteik hjá gagnlega barninu.

Þakka ykkur öllum fyrir árið sem er að líða. Ég óska ekki gleðilegs árs fyrr en það er gengið í garð.

|