Bara í öryggisskyni, svona í tilefni af fullyrðingu í þessari færslu Páls Ásgeirs (sem ég er ekkert að tjá mig um að öðru leyti ...), vill undirritaður starfsmaður Fróða hér með sverja af sér alla ábyrgð á Völvuspá Vikunnar. Enda fylgist ég ekki með fréttum. En ef ég (sem á reyndar glæstan spákonuferil að baki) hefði komið nálægt spánni hefði hún sko örugglega orðið meira krassandi. Og ekki jafn óttalega leiðinleg.
Ég meina ... ,,Það kæmi mér ekki á óvart þótt Unnur Birna Vilhjálmsdóttir ætti eftir að ná langt." Kommon. Ef maður er almennileg völva kemur ekkert manni á óvart. En gallinn er sá að það er ekkert í þessari spá sem á eftir að koma neinum á óvart ef það rætist. Ég hefði kannski spáð því að Unnur Birna ætti eftir að standa í árslok kasólétt við afgreiðslu á Select eða eitthvað. Kannski ekki mjög líklegt en hefði allavega komið einhverjum á óvart.
Og völvan sér ,,einhverjar deilur í kringum DV". Jamm. Þetta kalla ég varkárni. Ég hefði nú spáð að minnsta kosti slagsmálum og svívirðingum, ef ekki eldi og brennisteini, limlestingum og morðum.