Ég vaknaði rétt fyrir fjögur í nótt við að einhver maður hringdi og heimtaði að fá að vita hver ég væri. Þar sem ég er allajafna ekki í góðu skapi þegar ég er vakin með símhringingu um miðja nótt (og var auk þess búin að vakna fyrr um nóttina við sprengingu fyrir utan gluggann) harðneitaði ég að fræða hann um það. Var bara frekar foj við manninn.
Þá vildi hann endilega meina að ég héti Jóna. Ég kannaðist ekki við það en maðurinn stóð fastur á sínu. Kannski er þessi Jóna jafnmygluð og ég þegar menn hringja í hana fullir að næturlagi. Á endanum kvaddi ég manninn og lagði á.
Þegar ég var rétt að festa blund hringdi síminn aftur. Ég lyfti tólinu og tilkynnti manninum að ég væri þegar búin að segja honum að þetta væri vitlaust númer. Hann hélt nú ekki. Ég endurtók að ég væri ekki Jóna og neitaði aftur að segja honum hver ég væri. Hann sagði að hann hlyti að þekkja mig fyrst hann væri að hringja í mig.
Þar sem ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar orðið fyrir því að menn hafa hringt í mig (jafnvel að næturlagi) án þess að þekkja mig nokkurn skapaðan hlut keypti ég ekki þau rök. En maðurinn var fastur fyrir og það svo að ég endaði með að skella á hann. Það gerist nú ekki oft. Var að hugsa um að taka símann úr sambandi en gerði það þó ekki og maðurinn lét ekki í sér heyra aftur. Eins gott fyrir hann.