Ég ætla að fara að heimsækja vesalings kjálkaskurðaðgerðarsjúklinginn og passa hana á meðan mamma hennar sækir bróður hennar á Hagaborg. Aðgerðin gekk víst vel en barnið liggur núna heima og gubbar blóði. Ræfilstuskan. Svo þarf hún að lifa á fljótandi næstu dagana.
Mín eina reynsla af skurðagerðum er þegar skorið var þvers og kruss í ilina á mér um árið til að leita að brotnum títuprjóni. Það var ekkert gott en ég gat allavega borðað á eftir. Eins gott því þetta var daginn fyrir Þorláksmessu ef ég man rétt. Ég hoppaði á öðrum fæti þau jólin.
Nei, nú lýg ég. Var búin að steingleyma því að það voru teknir úr mér hálskirtlarnir þegar ég var tólf ára og þá þurfti ég meira að segja að vera þrjá eða fjóra daga á sjúkrahúsi. Eina spítalavist mín um dagana sem ekki er fæðingatengd.