Jæja, komin heim í sólina - reyndar var komin sól aftur í Tórínó þegar ég fór þaðan í fyrradag en það rigndi í London í gær.
Ég gisti reyndar á Radisson-hótelinu á Stanstedflugvelli í fyrrinótt því að klukkan var orðin hálftólf þegar þangað kom og ég nennti ómögulega inn til London en svo trappaði ég mig aðeins niður úr öllum lúxusinum undanfarna daga með því að gista á tveggja stjörnu hóteli í London í nótt. Það var reyndar allt í lagi og alls ekki versta hótelið sem ég hef gist á þar í borg. En það var enginn gimsteinafægiklútur innifalinn ...
Nú er ég að fara til gagnlega barnsins í mat (efnafræðistúdentinn er að servera kaffi fram á nótt hjá Te og kaffi). Og færa dótturdótturinni gjafirnar sem hún er svo spennt fyrir - ég get þó upplýst það hér að hún fær hvorki barbídót né ljótar buxur. (Viðkomandi buxur, sem ég sá á útimarkaði í Tórínó, voru í alvöru ljótustu buxur sem ég hef séð; eiturgrænar og eins og einhver hefði ælt yfir þær allar, reynt að hreinsa æluna en ekki tekist það vel. Þær voru svo ljótar að ég var næstum því búin að kaupa þær.)