Lorýa spyr hvort hnén á mér séu ekki jafngömul. Jú, það eru þau reyndar en það er samt eitthvað með vinstra hnéð á sumum í minni fjölskyldu ... Þegar efnafræðistúdentinn var yngri eignaðist hann aldrei svo buxur að ekki væri, fyrr en nokkurn varði, komið gat á vinstra hnéð. Ævinlega það vinstra; hægra buxnahnéð var yfirleitt stráheilt, allavega þar til búið var að margbæta það vinstra.
Ég hef svosem ekkert verið að veita því sérstaka athygli síðustu árin að vinstra hnéð á buxunum hans hafi slitnað óhóflega. Þetta hefur kannski elst af honum. En það er spurning hvort við mæðginin erum að beita vinstra hnénu eitthvað öðruvísi en því hægra - allavega er ekki að sjá neinn útlitsmun. Ég skoðaði þetta rækilega á drengnum á sínum tíma því að mér fannst ekki normalt hvað vinstra buxnahnéð varð alltaf illa úti hjá honum. En það var ekkert að sjá.