Mér skilst að sumir lesendur mínir sem búsettir eru í Danmörku eigi stundum erfitt með að vakna á morgnana og núna er ég búin að átta mig á af hverju þetta er. Það er svo skratti erfitt að tala dönsku í morgunsárið. Sjúkraþjálfarinn minn er nefnilega danskur og ég er að myndast við að tala dönsku við hann. Það gengur út af fyrir sig ágætlega (eða eins vel og samræður geta gengið þegar einhver er að þukla hnéð á manni nokkuð rösklega og sveigja það og teygja fram og aftur) en auðvelt er það ekki.
Eða nei, kannski stenst þessi skýring ekki. Efnafræðistúdentinn er nú oftsinnis býsna erfiður í gang á morgnana og ekki þarf hann að tala dönsku.