Eiginlega er alveg ótrúlegt hvað þessir flutningar hafa gengið hratt og vel. Núna eru rétt rúmir fjórir sólarhringar síðan okkur starfsfólkinu var tilkynnt um þá (fimm síðan ákvörðunin var tekin) og vinnan þegar komin gang hjá sumum (ég er búin að vera að skrifa og leiðrétta greinar síðan í morgun), aðrir á fullu að koma sér fyrir. Þetta væri sök sér ef við hefðum flutt inn í fullbúið húsnæði en hér eru iðnaðarmenn úti um allt að setja upp milliveggi og rífa veggi og laga gólf og múra gluggakistur og bæta við klósettum. Og innan um allt kaosið (sem er þó bærilega skipulagt) gengur skúringakonan með vagninn sinn og skúrar eins og ekkert hafi í skorist ...
Það verða reyndar einhverjir dagar í að eldhúsið komist í gagnið en þetta kemur allt. Og húsnæðið hér er að mörgu leyti betra og hentugra en það gamla var. Mikill kostur að vera með alla starfsmennina á einni hæð og þurfa ekki að taka lyftu niður fjórar hæðir til að fara í kaffi.
Hér eru dularfullar súlur úti um allt, mér skilst reyndar að þak hússins hafi einhvern tíma byrjað að síga ógnvekjandi hratt og þá hafi þessar súlur verið settar til að halda því uppi. Nánustu samstarfskonur mínar hafa hvor sína súluna á miðju skrifstofugólfi og geta dansað í kringum þær að lyst. Ég er bara með hálfa súlu því að mín er inni í miðjum vegg.