Ég hélt að kokkurinn á BBC Food væri að sýna einhverjar efnislitlar kvenmannsblúndunærbuxur en þetta sem hann hélt á lofti og dáðist að var þá bara netjumör.
Veit ekki hvað þetta segir um þankagang minn. En Sauðargæran dóttursonur minn er allavega matarlega þenkjandi; í hvert einasta sinn sem hann kom auga á svert, rautt kerti í Blómavali í gær (og þau voru nokkuð mörg) brást hann glaður við og sagði: -Sjáðu, bjúga!
Svo var hann afskaplega áhugasamur við eplaskífubakstur í morgun (þau systkinin gistu hjá mér); hrærði deigið fyrir mig og fylgdist mjög áhugasamur með steikingunni á milli þess sem hann raðaði í sig volgum eplaskífum með snjó (flórsykri). Gott að hafa svona liðsmann við matargerðina.