Nú erum við á Gestgjafanum að byrja að plana næsta ár og þess vegna datt mér í hug að spyrja hvort þið hafið einhverjar óskir eða hugmyndir sem þið viljið koma á framfæri. Ég bað um uppástungur fyrir kökublaðið og jólablaðið eins og þið munið kannski og út úr því komu margar áhugaverðar ábendingar - við tókum meira að segja heilmikið mark á þeim eins og vonandi sást í kökublaðinu og mun sjást líka í jólablaðinu sem kemur núna í vikulokin.
Sjálfa langar mig til dæmis til að skrifa meira af fræðslugreinum, þar á meðal klúðurgreinum - þ.e. hvers vegna klúðraðist kakan/sósan/steikin/búðingurinn ..., hvað á að gera til að koma í veg fyrir það og hvernig á að bjarga málunum (eða fela mistökin) ef skaðinn er skeður.
Er eitthvað sem við sinnum ekki nægilega vel eða erum jafnvel alveg að gleyma? Eitthvað sem þið vilduð gjarna sjá meira/minna af? Eitthvað sérstakt sem þið eruð mjög óánægð með eða mjög hress með?
Þið getið svarað hér eða sent ábendingar í tölvupósti (smellið á Skrifaðu mér hér til hliðar). Og þið þurfið ekkert að vera áskrifendur að Gestgjafanum til að hafa skoðun - ég vil ekki síður heyra frá þeim sem ekki eru það.