Ég leit í gluggann á Bókavörðunni þegar ég gekk framhjá á leiðinni heim, kom auga á bók sem mig hefur lengi vantað, Matreiðslubók Helgu Thorlacius frá 1940, fór inn og kom aftur allmörgum bókum ríkari. Stundum þegar ég kem þarna er ekkert eða nánast ekkert til sem ég hef áhuga á og Bragi segir þá stundum að rétta fólkið hafi ekki verið að deyja. En núna hafði greinilega rétta fólkið dáið - eða réttir erfingjar verið að hreinsa úr hillunum hjá afa og ömmu - og þarna var óvenju mikið sem Bragi hafði tekið frá handa mér að fara í gegnum. Þar á meðal Praktisk kogebog, án ártals en trúlega frá því fyrir 1930 (höfundur: En Erfaren husmoder) og svo Dyrtids-kogebog eftir M. Hindhede, gefin út 1915 og uppfull af sparnaðaruppskriftum og -matseðlum fyrristríðsáranna.
Ég var að hugsa um að elda upp úr þeirri bók samkvæmt þriðjudagsmatseðili handa okkur efnafræðistúdentinum, hann hljóðar upp á kartöflugraut (kartöflur fyrir 12 aura og undanrenna fyrir 3), eplakompott (epli fyrir 8 aura og sykur fyrir 3) og kjötbollur (smaaköd fyrir 21 eyri, nautakjöt fyrir 14 aura, rasp fyrir 2 aura, soðnar kartöflur fyrir 2 aura, laukur, sósulitur, undanrenna og hveiti fyrir 1 eyri hvert og svo margarín til steikingar fyrir 10 aura). Ef bætt er við kartöflum fyrir 9 aura og rúgbrauði fyrir 3 aura, þá kostar máltíðin handa 4 manna fjölskyldu 91 eyri.
En ég ákvað samt að kanna ekki undirtektir efnafræðistúdentsins við þessum matseðli. Í staðinn er ég að baka pitsu með hráskinku, klettasalati, svörtum ólífum og stöffi. Hún kostar reyndar aðeins meira en 91 eyri.