Ég gaf efnafræðistúdentinum súkkulaðijóladagatal, meira að segja fyrir mánaðamótin. Hann fékk dagatal í fyrra líka en þá ekki fyrr en vika var liðin af desember og dagatölin voru komin á útsölu á 99 krónur. Dagatalið í ár var greitt fullu verði, heilar 199 krónur. Hann varð auðvitað mjög glaður. En ég held að hann sé samt vaxinn upp úr þessu, því að ég hef þurft að minna hann á jóladagatalið á hverjum degi síðan.
Annars finnst mér súkkulaðidagatöl ekki vera alvöru jóladagatöl. Einu almennilegu jóladagatölin eru þessi sem eru með krúttlegum litlum jólalegum myndum fyrir innan gluggana. Aðalmyndin er oftast feitur jólasveinn, sakleysislegir englar í náttkjólum eða eitthvað ámóta. Ég man eftir einu slíku sem ég átti; blaðið með litlu myndunum hafði verið límt eitthvað skakkt á svo að það sást ekki nema helmingurinn af þeim þegar gluggarnir voru opnaðir. Það dagatal var bara notað einu sinni en annars voru þessi dagatöl stundum endurnýtt; eftir jólin var gluggunum lokað og þau geymd fram að næsta 1. desember. Að vísu héldust gluggarnir ekkert alltaf vel lokaðir en það varð að hafa það.
Svo man ég eftir jóladagatali sem var samsett úr nokkrum hlutum sem festir voru hver utan á annan, eins og þrívíddarmynd; held að þetta hafi verið einhvers konar bjálkakofi, eða var þetta hús dverganna sjö? Eitthvað rámar mig í Mjallhvíti og dvergana en það er kannski úr öðru dagatali.
Ég var að hugsa um að kaupa mér jóladagatal áðan, þótt mánaðamótin séu liðin. Svona feitan brosandi jólasvein með bjöllu og gjafapoka. En það var rándýrt og ég tímdi því ekki. Nostalgía er góð en það eru takmörk. Ef ég hefði rekið augun í samsett bjálkakofadagatal með dvergum, það hefði kannski verið annað mál.