Það er einn hæfileiki sem hefur fleytt mér ansi langt í eldhúsinu stundum: Að hafa lag á að redda hlutunum fyrir horn þegar allt fer í klúður og vitleysu. Að geta borið búðing sem heldur áfram að vera í fljótandi formi sama hve lengi hann er kældur fram með skeið og fullyrða ,,en þetta á að vera svona!" Að skera brenndu skorpuna af steikinni, flikka upp á hana með tiltækum ráðum og bera hana brosandi fram fyrir gesti. Að átta sig á því að kakan sem maður var að baka hefur fallið í miðju, ljósmyndari Gestgjafans er á leiðinni og enginn tími til að baka nýja ... þá eru góð ráð dýr en ég fullyrði að enginn sem smakkaði eða sá kökuna áttaði sig á því hvað gerst hafði.
Það er nefnilega mikill misskilningur að ég sé óbrigðull snillingur. Ég er þvert á móti frægur klúðrari í eldhúsinu. Spyrjið bara börnin mín. Og þess vegna er ég að áforma að skrifa þátt í Gestgjafann um svona reddingar á síðustu stundu. Ég er sérfræðingur í þeim. Byrjaði þegar ég var þrettán ára og var að baka rúllutertu. Gleymdi henni í ofninum og hún brann á jöðrunum og varð svo hörð að það var ekki nokkur leið að rúlla henni upp. Ég hljóp út í búð og keypti rjómapela og litla dós af ferskjum eða einhverjum ávöxtum, skar brunnu rendurnar af tertunni, skar afganginn í bita, þeytti rjómann og blandaði svo kökubitum og ávöxtum saman við og setti í skál. Það kvartaði enginn en ég var til allrar hamingju ekki búin að segja neinum að ég hefði ætlað að baka rúllutertu.