Ég kom við í Kolaportinu áðan, ætlaði að athuga hvort þar væru til steinbítskinnar en sá engar. Svo skoðaði ég í bókabásana, meira af gömlum vana en ég ætti von á að finna eitthvað. Venjulega kaupi ég ekkert - oftast fást bara þýddar samprentsbækur eða 20-30 ára útlendar bækur sem ég hef sjaldan áhuga á (ég er bara að leita að matreiðslubókum, ef það skyldi vefjast fyrir einhverjum) - en í þetta skipti rakst ég á Transylvanian Cuisine eftir Paul Kovi, sem er lengi búin að vera á lista yfir bækur sem ég ætla að kaupa við tækifæri, þannig að ég greip hana með.
Kannski elda ég eitthvað úr henni í kvöld. Transylvanískan nautapottrétt eða eitthvað slíkt. Eða Szilágysági Bárányfejleves - nei, ætli ég hlífi ekki fjölskyldunni við því, það mundu engir borða það nema ég og kannski Boltastelpan. Þetta er nefnilega transylvanísk sviðasúpa þar sem maður notar haus, háls, lungu og lifur úr lambi og sýður með beikoni og grænmeti. Mér finnst þetta hljóma vel en sennilega eru fáir sammála mér um það.