Fréttablaðið er með frásögn af kanadískri rannsókn sem bendir til þess að það sé oft minna en ekkert gagn að því að hafa föðurinn viðstaddan fæðingu barnsins. Nærvera hans valdi bara auknu álagi og streitu á móðurina og geri hana hrædda.
Ég kaupi það alveg. Ég var miklu minna stressuð þegar ég var að eiga dóttur mína, nýorðin sautján ára, og enginn viðstaddur nema María gamla ljósa (sem tók líka á móti mér) og læknir sem ég þekkti vel, heldur en þegar ég átti efnafræðistúdentinn, að viðstöddum einhverju kraðaki af ljósmæðrum og föður sem var næstum liðið yfir um leið og hann kom inn á fæðingarstofuna og var til lítils gagns eftir það. Líklega var einhver læknir þarna líka, ég varð ekki vör við hann.
Samt finnst mér eiginlega að þeir eigi að vera viðstaddir, þó ekki sé nema til að sjá hvað maður þarf að ganga í gegnum.
Annars - fyrst ég er að tala um fæðingar - þá er tvennt sem ég þoli ekki:
1) Læknar og ljósmæður sem virðast líta á fæðingu sem sjúklegt ástand og gleyma að hlusta á móðurina.
2) Ljósmæður og áhugakonur um heima- og náttúrulegar fæðingar (tek fram að ég hef ekkert á móti þannig fæðingum fyrir þær sem vilja) sem eru svo sannfærðar um að þeirra afstaða sé sú eina rétta að þær gleyma að hlusta á móðurina.