Ég bjó til harissa (norður-afríska chilisósu/ídýfu) áðan og hún gerði afar mismikla lukku þar sem chiliþröskuldur vinnufélaganna er afskaplega misjafn. Sumum nægði einn dropi, aðrir dýfðu brauðinu sínu í sósuna hvað eftir annað. Enginn komst samt í hálfkvisti við drenginn frá Ghana, sem mokaði heilli matskeið út á kjúklingabitann sinn.
Stundum vil ég hafa mat sterkan, svo sterkan að mig logsvíði undan honum. Er þetta masókismi? Love is pain, eins og einhver sagði. Samt er ég ekki alveg eins mikill chilihaus og þeir sem segja að maturinn sé ekki almennilegur fyrr en mann sé farið að svíða undan honum tvisvar - einu sinni þegar hann fer inn, aftur þegar hann fer út. Svo sterkt held ég að ég hafi aldrei eldað.
Harissa
50 g þurrkuð rauð chilialdin
sjóðandi vatn
4-5 hvítlauksgeirar
1 msk kummin
1 tsk salt
100 ml olía
Chilialdinin brotin í tvennt og mestöll fræin hrist úr þeim (það er mjög ráðlegt að nota hanska við þetta, eða þvo sér allavega mjög mjög vel um hendur á eftir). Hýðin eru svo sett í skál, dálitlu heitu vatni hellt yfir og látið standa í um klukkutíma. Þá er vatninu hellt af chili-inu og það sett í matvinnsluvél ásamt hvítlauk, kummini og salti og maukað. Olíunni hellt saman við smátt og smátt.
Harissan geymist vel í lokuðu íláti í ísskáp. Hún er notuð til að krydda ýmsa norður-afríska pottrétti, súpur og sósur, og einnig sem ídýfa eða meðlæti fyrir fólk sem kann að meta sterkt chilimauk.