Fávís kona spyr
Snúran á fartölvuhleðslutækinu brann í sundur áðan. Með bláum reyk og alles. Fast upp við hvaðþaðnúheitir dippidúttinn sem maður stingur í tölvuna. Allt í lagi með tölvuna og hleðslutækið sjálft.
Þetta er hleðslutækið sem einkasonurinn lánaði mér eftir að snúran á mínu hleðslutæki fór í sundur, nema það var hinn endinn, hleðslutækismegin. Það hleðslutæki er í fínu lagi líka nema semsagt snúran (eða annar þátturinn í henni) fór í sundur. Án þess þó að brenna.
Nú spyr ég eins og fávís kona (sem er hárrétt fullyrðing hvað þetta varðar allavega), hvað gerir maður í svona tilviki? Þarf að kaupa nýtt hleðslutæki (þetta er makki) á mörgþúsund og sjötíu krónur? Fer maður með hleðslutækið/tækin í viðgerð og borgar mörgþúsund og þrjátíu krónur fyrir að gera við eina vesæla snúru? Eða er þetta eitthvað sem handlaginn maður getur lagað á þremur mínútum? Og ef svo er, hvar finnur maður svoleiðis mann?