Lausnin á Seðlabankavandanum
Nú efast ég ekki um að þessi tillaga hafi komið fram áður, hún er eitthvað svo borðleggjandi, en finn fátt um það í fljótu bragði - en er ekki hægt að redda þessu Davíðsmáli öllu með því að drífa í að framfylgja stefnu stjórnvalda um flutning ríkisstofnana út á land og flytja Seðlabankann með manni og mús ... til dæmis til Trékyllisvíkur? Eða út í Grímsey, er ekki allt í lægð þar, búið að selja stóran hluta kvótans og fresta framkvæmdum - þeim mundi nú ekki veita af öflugri innspýtingu í atvinnulífið.
Ég man ekki betur en það hafi komið fram í könnun í fyrra að þrír fjórðu yfirmanna ríkisstofnana væru jákvæðir gagnvart flutningi þeirra út á land, man ekki betur en það hafi verið yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins í stjórnartíð Davíðs. Svo varla getur hann haft mikið á móti því. Reyndar þyrfti kannski að hafa seðlageymsluna einhversstaðar uppi á fastalandinu og líklega smáafgreiðslu í Reykjavík en að öðru leyti held ég þetta hljóti að vera ídeal lausn.
Tvær flugur í einu höggi, semsagt.