Tvöfalt afmæli
Einkasonurinn á afmæli í dag, 28 ára. Litli drengurinn minn. Mér finnst hann vera frekar ungur enn en á hans aldri átti ég ellefu ára barn.
Reyndar var verið að benda mér á það á dögunum að ég varð mamma 17 ára og núna er ég 3x17 ára. Semsagt komin á langömmualdur.
Ég hefði nú líklega boðið drengnum í mat í kvöld í tilefni dagsins en hann er með gesti og fullfær um að elda ofan í þá sjálfur; reyndar er hann listakokkur. Það var ég sannarlega ekki á hans aldri.
Aftur á móti getur verið að ég fái mér púrtvínsglas á eftir í tilefni af því að í dag eru nákvæmlega 20 ár síðan ég sagði föður hans að ég væri farin. Hætt. Búin. Ætlaði ekki að standa í þessu lengur.
Það er nú alveg tilefni til að fá sér púrtvín. Betri sortina.