Hjólabrettakappi með fiskipítsu
Afmælisdrengurinn hringdi í gærkvöldi og söng fyrir mig ,,Ég á afmæli í dag" - sennilega vissi hann að ég væri ólíkleg til að syngja fyrir hann. Sagði mér að hann hefði fengið hjólabretti og kappakstursbíl í afmælisgjöf og væri þegar búinn að detta oft af hjólabrettinu. Mikið fjör. Hann á örugglega eftir að drepa sig á þessu appírati. En það voru foreldrarnir sem gáfu honum það svo að þeim er nær.
Síðan upphófust deilur á milli hans og móður hans um hvort þau væru stödd á Hólmavík eða ekki. Ekki fékkst niðurstaða sem afmælisbarnið sætti sig við en þau munu vera í sumarbústað skammt frá Hólmavík. Hann sagðist vera að fara að veiða í dag (fisk en ekki ísbirni) og ætlar að koma með fiskipítsu handa mér. Ég náði því ekki alveg.
Systur hans gengur vel á fótboltamótinu - eða reyndar er hún ekki farin að spila sjálf, tókst að sprauta kælikremi í augað á sér í gær, blessuðum hrakfallabálkinum, en hún á að spila við enskt lið (Reading) í dag - en þær eru í efsta sæti í sínum riðli þannig að hún er býsna ánægð með árangurinn.