Já, ég gleymdi að segja að það var ekki nóg með að ég ætti deit við Tony Bourdain í dag, ég fékk líka koss frá Völla Snæ. Sjónvarpskokkarnir bara dragast að mér eins og flugur um þessar mundir.
Ég var í mat hjá gagnlega barninu áðan. Dóttursonur minn er afar áhugasamur um matargerð og bakstur eins og áður hefur komið fram og nú var hann að leika pitsubakara og bakaði pitsu með grænu súkkulaði (sem ég held að hafi helgast af því að Legokubbaplatan sem hann hafði fyrir pitsu var græn). Hann notaði skenk í stofuskápnum sem ofn og tilkynnti að það væri eldur þar inni; veit sem er að pitsur þurfa að vera eldbakaðar til að vera almennilegar. Svo fannst honum það ekki duga til og sagði mér að það væri eldgos í ofninum.
Uppáhaldstengdasonur minn neitar að horfast í augu við staðreyndir og vill ekki viðurkenna að sonur hans stefnir hraðbyri í að verða annaðhvort kokkur eða snúðabakari þegar hann vex úr grasi. Eða kannski matargúrú.